Verkefni stýrihópsins

iStock_000000638500Small[2]


Þann 18. ágúst 2009 skipaði iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, stýrihóp um mótun heildstæðrar orkustefnu.  Samkvæmt erindisbréfi var hópnum ætlað að:

  • Ná heildaryfirsýn yfir mögulegar orkulindir landsins, aðferðir og tækni við nýtingu þeirra, hugsanleg umhverfisáhrif og sjálfbærni nýtingarinnar ásamt rekstrarlegri og þjóðhagslegri hagkvæmni.
  • Fara sérstaklega yfir möguleika og hugsanlegar aðferðir stjórnvalda til þess að stjórna nýtingu orkunnar m.t.t. sjálfbærni, efnahagslegrar uppbyggingar og stöðugleika.
  • Stýrihópurinn skal sérstaklega fjalla um möguleika á að nýta orkulindirnar og sérþekkingu okkar og reynslu á sviði orkumála til atvinnuuppbyggingar á næstu árum.
  • Stýrihópurinn skal skoða möguleika á samvinnu við aðrar þjóðir í orkumálum og gera tillögur um aðgerðir stjórnvalda til að efla slíka samvinnu ef hagkvæmt er talið.
  • Stýrihópurinn skal gera tillögu að forgangsröðun á nýtingu orkunnar með hliðsjón af áherslum og markmiðum ríkisstjórnarinnar, s.s. í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
    Móta skal skýra stefnu og markmið um minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis og losun koltvísýrings með betri orkunýtni, orkusparnaði, hagrænum hvötum og með því að þróa og nýta vistvæna orkugjafa fyrir bifreiðar, tæki og skip.
  •  Meta stöðu Íslands með tilliti til orkuöryggis og viðbúnaðar til að bregðast við utanaðkomandi aðstæðum.
  • Kortleggja fræðslu og rannsóknir á sviði orkumála og gera tillögur um samstarfsvettvang sem kanni möguleika á betri samhæfingu og samstarf[i] mismunandi starfseininga.
  • Stýrihópurinn skal í starfi sínu leitast við að skilgreina og tímasetja markmið og kennistærðir þannig að hægt sé að mæla þróun og árangur á sviði orkunýtingar og minni umhverfisáhrifa.


Í september 2010 barst stýrihópnum eftirfarandi erindi frá iðnaðarráðherra:

"Í ljósi umræðu um eignarhald á mikilvægustu orkufyrirtækjum og þeirrar vinnu sem sett hefur verið af stað af hálfu ríkisstjórnarinnar við undirbúning mögulegra lagafrumvarpa um þau efni er óhjákvæmilegt að stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu taki málið til umfjöllunar á sínum vettvangi og skili viðauka við skýrslu sína þar sem farið er stuttlega yfir eftirfarandi í ljósi niðurstaðna hópsins að öðru leyti:

1. Helstu leiðir varðandi eignarhald í orkuframleiðslu, kostir og gallar og áhrif á framkvæmd heildstæðrar orkustefnu.
2. Vænlegustu leiðir að mati stýrihópsins."


Í stýrihópinn voru skipuð þau Vilhjálmur Þorsteinsson, formaður, Bergur Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðni A. Jóhannesson, Guðrún Jóna Jónsdóttir, Gunnar Tryggvason og Salvör Jónsdóttir.  Með hópnum starfaði Helga Barðadóttir sérfræðingur hjá iðnaðarráðuneytinu.

Stýrihópurinn kom fyrst saman 2. nóvember 2009 og hefur lengst af fundað vikulega.

Auk stýrihóps unnu að texta orkustefnunnar þau Ágústa S. Loftsdóttir, Sveinbjörn Björnsson og Lárus Ólafsson hjá Orkustofnun.