Heildstæð orkustefna fyrir Ísland
Iðnaðarráðherra skipaði í ágúst 2009 stýrihóp um mótun heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland. Orkustefnunni er ætlað að vera grundvöllur og viðmið ákvarðana er varða orkumál og skulu allar ákvarðanir stjórnvalda vera í sem bestu samræmi við stefnuna. Stýrihópurinn skilaði tillögum sínum til Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, þann 3. nóvember 2011. Kjarninn í stefnunni er „Að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti, samfélaginu og almenningi til hagsbóta“. Er hér vísað í hinar þrjár stoðir sjálfbærni, þ.e. verndun umhverfis, samfélagslega sátt, og hagræna sjálfbærni til lengri tíma litið.